Information video in Icelandic
Hér má skoða myndband á Íslensku um verkefnið.
Hinsegin flóttafólk (e. SOGIE refugees) sem er á flótta frá heimalandi sínu eða er ríkisfangslaust vegna ofsókna á grundvelli kynhneigðar eða kynvitundar, er sérstaklega viðkvæmur hópur. Markmið þessa verkefnis er að byggja upp þekkingu á málefnum hópsins, sem lið í að bæta úr skorti á rannsóknum á málaflokknum.
Vitneskjan getur nýst til stefnumótunar og þjónustu við hópinn á Íslandi; Landi sem hefur þá alþjóðlegu ímynd að vera hinsegin paradís. Rannsakendur munu kanna reynslu hinsegin flóttafólks af mótttöku, þjónustu og stuðningi og félagslegri aðild og þátttöku í samfélaginu. Í þessu samhengi er einnig er mikilvægt að afla þekkingar varðandi það hvernig hinsegin flóttafólk notar rafræna tækni og samfélagsmiðla, í ferli samskipta, þátttöku og aktívisma.
Rannsóknarteymið er þverfaglegt og þverþjóðlegt og samanstendur af rannsakendum á sviði félagsráðgjafar, félagsfræði, mannfræði og kynjafræði. Rannsóknarsniðið er eigindlegt, tekin verða 40-50 hálf opin viðtöl við hinsegin flóttafólk og starfsfólk á vettvangi mótttöku og þjónustu (útlendingastofnun, landamæraeftirlit, félagsþjónusta sveitarfélaga, félaga- og hagsmunasamtök). Einnig verður etnógrafískri vettvangsathugun beitt sem hluta af viðtölunum.
Niðurstöður rannsóknarinnar verða bornar saman við niðurstöður rannsókna í hollensku samfélagi á málefnum hinsegin flóttafólks, með það að markmiði að varpa frekara ljósi á og auka fræðilegan skilning á hugtakinu “hinsegin paradís.” Gefin verður út rafræn handbók fyrir fagfólk og hinsegin flóttafólk á nýrri vefsíðu og útbúin verður skýrsla með tillögum að bættri stefnu í móttöku hinsegin flóttafólks .